Laugardagur á ný.

Sælt veri fólkið.

Ég átti alltaf eftir að segja frá Snoop Dog tónleikunum. Óskar vinur var svo vinalegur að bjóða mér með á hundinn og ég sló til. Maður á aldrei að neita fríum tónleikum. Ég var bara nokkuð sáttur. Þessi tónlist er kannski ekki minn tebolli, en þetta var alvöru "concert" og þarna var maður á ferð sem kunni sitt fag. Ego eða ekki ego þá naut ég mín þarna og sé ekki eftir að hafa farið. Gaman að kynnast þessari hlið á tónlistinni. Sumt ungviðið þarna var kannski ekkert voðalega "skýrt" í framan, en ég geri nú ráð fyrir að þau þurfi að reka sig á alveg eins og við hin.

Gærdagurinn var vikilega fínn. Ég eldaði ofan í vinnufélagana og það gekk vel. Eftir vinnu fór ég niður Laugaveginn og kíkti í búðarglugga. Ég hitti síðan gamla og góða kunningja, Nikulás Ægisson, Pétur Gauta og svo Sigga Eyberg. Við sátum úti við Café París og nutum blíðunnar og útsýnisins. Við Siggi skelltum okkur svo heim til hans og fengum okkur að borða. Ég rölti inn á Rossopommodoro og náði í pizzu. Sá snæðingur var einn sá besti sem ég hef fengið lengi úr flatbökudeildinni. Pizzan var með fjórar osttegundir og svo var toppað með hráskinku og rucola káli. Mæli eindregið með þessu. Gætuð þurft að fara í greiðslumat áður þar sem bitinn er nokkuð dýr.
Eftir snæðing og ríflegan skammt af koníaki, skelltum við okkur út á Kaffibarinn og fleiri staði.
Ég var á rölti um krár aðallega á Ölstofunni reyndar og fór svo heim um 6 leytið. Hitti fullt af skemmtilegu fólki og þetta kvöld var mjög vel heppnað.

Í morgun hringdi Ellen systir í mig og kom svo og náði í mig og við fengum okkur eitthvað gott í hádeginu.

Ég kíkti svo í kvöld á Óliver og hlustaði með öðru eyranu á munnhörpuleik Sigga Eyberg til stuðnings smá dinnersöngs. Virkilega ljúft. Ég fékk mér skrítna súpu, sem var ágæt svona fyrstu 5 skeiðarnar.
Ég kíkti svo á Ölstofuna og fékk mér kaffi. Hugmyndin var að hitta nokkra vini þar, en ég hreinlega nennti þessu ekki og fór heim og sit núna og glápi á kassann og hakka í mig túnfiskfylltar ólífur. Ég held bara hreinlega að ég sé búinn að klára djammpakkann. Er ekki að njóta þess núna og því best að snúa sér annað.

Ég hef upp á síðkastið verið voðalega mikið fyrir að skella mér í bæinn, en ég fann það svo vel í kvöld hvað þetta getur verið innantómt.

Nú vil ég bara komast út aftur til Danmerkur og fara að koma mér fyrir á nýja staðnum. Búa til hreiður fyrir mig og börnin mín þegar þau eru hjá mér. Ég skal vel viðurkenna það að ég kvíði þessum tíma en á sama tíma hlakka ég ofsalega mikið til.
Ég talaði við Alexander og Dísu í síma í gær og það var svo gaman.

Næsta fimmtudag sæki ég þau svo í sveitina og við förum í bústað til pabba um verslunamannahelgina.

jæja, tala meira síðar.

kveðja,

Arnar Thor

Ummæli

Vinsælar færslur